Reynir Smári Atlason hefur verið ráðinn til starfa hjá Landsbankanum þar sem hann mun sinna störfum tengdum samfélagsábyrgð og sjálfbærnimálum bankans.
Í tilkynningu frá bankanum segir að Reynir sé einn af stofnendum ráðgjafarfyrirtækisins Circular Solutions. Hann hafi í gegnum störf sín komið að flestum grænum skuldabréfaútgáfum hér á landi, ásamt því að aðstoða mörg af stærstu fyrirtækjum landsins við upplýsingagjöf um samfélagsábyrgð og sjálfbærni.
„Reynir lauk doktorsprófi í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands árið 2015. Hann starfaði sem lektor við verkfræðideild Háskólans í Suður-Danmörku (SDU) frá 2015 til 2019. Á undanförnum árum hefur hann birt fjölda ritrýndra greina og bókakafla á sviði umhverfisvísinda og sjálfbærni,“ segir í tilkynningunni.
Reynir mun hefja störf hjá bankanum nú um mánaðamótin.