Hæstiréttur Írlands dæmdi í dag að brauðið sem selt er á skyndibitastaðnum Subway innihaldi svo mikinn sykur að það geti lagalega ekki flokkast sem brauð.
Niðurstaðan náðist vegna skattamáls sem Bookfinders, eigandi Subway á Írlandi, hafði höfðað vegna þess að það taldi að ekki ætti að leggja virðisaukaskatt á sumar vörurnar sem seldar eru á stöðunum, til dæmis kaffi, te og samlokur.
Hæstiréttur hafnaði kröfu Bookfinders í dag og var niðurstaðan sú að of mikill sykur væri í brauðinu sem selt er á Subway til þess að hægt sé að flokka það sem nauðsynjavöru, sem er ekki skattlögð.
„Það er engin spurning að í brauðinu Subway selur, og notar í hituðu samlokurnar sínar, vegur sykurinn 10% þess sem hveitið vegur í brauðinu og nær því yfir 2 prósent markið,“ segir í dómnum samkvæmt frétt AP.
Í lögum Írlands er greint á milli brauðs sem er nauðsynjavara og annarra bakkelsa sem innihalda meira sykurmagn.