Sport

Reyndi að kasta stuðaranum sínum í andstæðing í miðri keppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luca Corberi fór langt með að eyðileggja feril sinn með framkomu sinni um helgina.
Luca Corberi fór langt með að eyðileggja feril sinn með framkomu sinni um helgina. Skjámynd/Youtube

Ítalski ökugarpurinn Luca Corberi er væntanlega á leiðinni í mjög langt bann eftir hneykslanlega framkomu sína í kappakstri á Ítalíu í gær.

Luca Corberi var að keppa í FIA ​​KZ heimsmeistaramótinu í körtuakstri en hafði þurft að hætta keppni eftir að hafa lent í árekstri við annan ökumann.

Corberi þótti greinilega á sér brotið en sá sem keyrði utan í hann gat haldið áfram keppni á meðan hann sjálfur var úr leik.

Corberi var alveg brjálaður og hugsaði greinilega ekki skýrt. Því miður komst enginn að honum nægilega snemma til að fá hann til að hætta við fíflaskap sinn.

Corberi skapaði nefnilega stórhættu með því að reyna að kasta stuðaranum á ökukerru sinni í annan keppenda um leið og sá hinn sami keyrði framhjá honum.

Corberi beið þolinmóður með stuðarann sinn í hendi þar til að umræddur ökumaður keyrði framhjá honum. Hann kastaði þá stuðaranum inn á brautina en margir bílar voru þá að keyra framhjá á sama tíma. Ítalinn skapaði með þessu stórhættu.

Það má sjá þetta hér fyrir neðan.

Luca Corberi var ekki hættur því hann réðst síðan á sama ökumann eftir keppnina og úr urðu talsverð slagsmál á þjónustu- og viðgerðarsvæðinu við kappakstursbrautina.

Luca Corberi er 23 ára gamall en það er erfitt að sjá hann eiga einhverja framtíð í kappakstri eftir þessa framgöngu sína. Hann er væntanlega á leiðinni í mjög langt bann og mögulega ævilangt bann.

Hér fyrir neðan má sjá slagsmálin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×