„Flautaðu þetta af! Þetta er búið. Þetta er búið. Dómari. Skomina, þarna. Skomina, dómari!“
Eflaust muna margir eftir þessum orðum í lýsingu Gumma Ben frá stærstu stund íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, þegar það sló England út í 16-liða úrslitum EM 2016. Í kjölfarið bað Gummi um að hann yrði aldrei vakinn „af þessum geggjaða draumi“.
Téður Damir Skomina verður á ferðinni á Laugardalsvelli á fimmtudaginn því þessi reynslumikli Slóveni mun dæma leik Íslands og Rúmeníu í undanúrslitum EM-umspilsins. Allt byrjunarlið Íslands frá EM er einmitt samankomið í landsliðshópnum í dag, í fyrsta sinn síðan á EM.

Skomina, sem er 44 ára gamall, er afar virtur og dæmdi til að mynda úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í fyrra, þrjá leiki á HM 2018 og fjóra leiki á EM 2016.
Myndbandsdómgæsla, VAR, verður í boði í fyrsta sinn á Íslandi á leiknum og Skomina mun því geta notið aðstoðar Spánverjans Juan Martínez Munuera sem fylgist með leiknum á skjám.
Ef Skomina eða einhver af hans aðstoðarmönnum greinist með kórónuveirusmit eða þarf að fara í sóttkví er það í höndum UEFA að fylla í skarðið fyrir viðkomandi. Samkvæmt sérstökum reglum sambandsins vegna faraldursins er mögulegt í ítrustu neyð að íslenskur dómari eða dómarar hlaupi í skarðið.