Haraldur Noregskonungur hefur verið lagður inn á sjúkrahús og er gert ráð fyrir að hann gangist undir hjartaaðgerð á morgun. Þarf að skipta út hjartaloku sem hann fékk ígrædda árið 2005.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá norsku konungshöllinni. Konungur hefur verið nokkuð fjarverandi að undanförnu og þurft að afboða sig á ýmsa viðburði vegna veikinda.
Bjørn Bendz, læknir Noregskonungs, segir að konungur hafi gengist reglulega undir skoðun og sé það nú mat lækna að þörf sé á aðgerð til að bæta megi öndunina.
Er reiknað með að konungur verði staðdeyfður við framkvæmd hjartaaðgerðarinnar.