Ekstra Bladet hefur það eftir heimildum sínum að FC Kaupmannahöfn hafi látið þjálfarann Ståle Solbakken fara því hann hafði misst trú leikmanna félagsins.
Það kom ansi mörgum á óvart er FCK lét Ståle fara um helgina en hann hefði gert magnaða hluti með félagið og virtist ekki vera á leið burt þrátt fyrir að illa hafi gengið að undanförnu.
Í yfirlýsingu FCK og í viðtölum við stjórnarmenn félagsins sögðu þeir að árangurinn á árinu 2020 væri ekki nægilega góður. Því var ákveðið að skipta um þjálfara en það ku ekki vera eina ástæðan fyrir brottrekstrinum.
Avis: Ståle Solbakken tabte omklædningsrummet i FCK #sldk https://t.co/7Js1kyz1XO
— tipsbladet.dk (@tipsbladet) October 12, 2020
Leikmennirnir voru ekki lengur tilbúnir að hlaupa fyrir þjálfarann, segir í frétt Ekstra Bladet. Ósætti leikmannanna hafi byrjað rétt fyrir kórónuveiruna og stigvaxið í sumar og haust.
Leikmannahópurinn er sagður m.a. hafa verið mjög ósáttur við þá staðreynd að Ståle gagnrýndi reynda leikmenn félagsins eins og Pierre Bengtsson og Andreas Bjelland.
Þá er einnig talið að hópurinn sé illa samansettur. Innan hópsins séu þrjár klíkur; Norðurlandabúarnir, þeir sem tali spænsku og svo tveir Króatar.
FCK hefur enn ekki fundið arftaka Ståle en William Kvist, sem er nú yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu, segir leitina í gangi.