Lögreglan stöðvaði fjórtán ökumenn í gærkvöldi og í nótt vegna aksturs undir áhrifum áfengis eða vímuefna.
Þrír af þeim ökumönnum höfðu lent í umferðaróhöppum áður en lögregla hafði afskipti af þeim að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Þeir ökumenn voru vistaðir í fangaklefum og bíða skýrslutöku þegar ástand þeirra skánar.
Þá var ökumaður stöðvaður í hverfi 103 og reyndist bifreiðin sem hann ók vera stolin. Maðurinn var á meðal þeirra sem vistaður var í fangaklefa.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var einnig talsvert um hávaðaútköll víðs vegar um borgina vegna samkvæmishávaða.
Alls var 91 mál skráð hjá lögreglu frá klukkan 17:00 í gær til klukkan 05:00 í nótt og voru sex vistaðir í fangaklefum á tímabilinu.