Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er í 39. sæti á nýjum FIFA-lista sem var kynntur í morgun.
Vísir sagði frá því í síðustu viku að íslenska landsliðið myndi hækka sig á listanum í fyrsta sinn á þessu ári. Ísland fór upp um tvö sæti.
Ísland deilir 39. sæti listans með landsliði Marokkó sem hækkaði sig um fjögur sæti á listanum.
NEW #FIFARanking
— FIFA.com (@FIFAcom) October 22, 2020
Belgium stay top
Malta the biggest climbers
Argentina boosted by #WCQ wins
https://t.co/RWlj0zM8bp pic.twitter.com/m5vQsnragn
Það eru aftur á móti ólík örlög hjá síðustu mótherja Íslands á nýjasta FIFA-listanum. Rúmenar hröpuðu niður FIFA-listann en Danir eru aftur á móti komnir upp fyrir fjórfalda heimsmeistara Þjóðverja.
Rúmenar töpuðu fyrir Íslandi, Noregi og Austurríki í síðasta landsliðsglugga og falla niður um heil tíu sæti á listanum en engin þjóð á listanum fellur niður um fleiri sæti að þessu sinni.
Danir, sem unnu Ísland á Laugardalsvellinum og England á Wembley, hækka sig aftur á móti um þrjú sæti og eru nú komnir upp í þrettánda sæti. Danir komast meðal annars upp fyrir Þjóðverja sem eru nú í 14. sæti.
Belgar, sem unnu einnig Ísland í Laugardalnum, halda áfram efsta sæti listans og engin breyting er á efstu fimm þjóðunum. Spánverjar komast hins vegar upp um eitt sæti og í sjötta sætið en þeir fara upp fyrir Úrúgvæ á listanum.