Dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings samþykkti tilnefningu Donalds Trump forseta á Amy Coney Barrett sem hæstaréttardómara í dag. Demókratar sögðust ætla að sniðganga atkvæðagreiðsluna til þess að mótmæla vinnubrögðum repúblikana sem fara með meirihlutann í nefndinni.
Mitch McConell, leiðtogi meirihluta Repúblikanaflokksins í öldungadeildinni, sagði í dag að greidd yrðu atkvæði um útnefningu Barrett í þingdeildinni þegar á mánudag. Aðeins þarf einfaldan meirihluta til að staðfesta skipan hennar sem dómara við réttinn til lífstíðar. Repúblikanar eru með 53 þingsæti af hundrað í öldungadeildinni og Mike Pence varaforseti getur greitt oddaatkvæði falli atkvæði jöfn.
Tíu fulltrúar demókrata í dómsmálanefndinni, þar á meðal Kamala Harris, varaforsetaefni flokksins, ætluðu að sniðganga atkvæðagreiðsluna vegna óánægju þeirra með að repúblikanar ætluðu að þvinga staðfestingu Barrett í gegn með flýti fyrir kosningar, að sögn Washington Post.
Þeir hafa vísað til þess að McConnell hafnaði að fjalla um dómaraefni Baracks Obama, þáverandi forseta, þegar sæti við dómarann losnaði tíu mánuðum fyrir kosningarnar árið 2016. Hélt McConnell því þá fram að of skammt væri til kosninga og að nýr forseti ætti að fá að velja dómaranna. Repúblikanar hafa sagt aðstæður aðrar nú þar sem þeir ráða bæði forsetaembættinu og öldungadeildinni, ólíkt árið 2016 þegar Obama var forsetinn en repúblikanar fóru með meirihluta í deildinni.
„Þetta eru þvílík brot á bandarískum hefðum, gildum, velsæmi og heiðri,“ sagði Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni.
Breyttu fundarsköpum
Repúblikanar breyttu fundarsköpum til þess að geta haldið áfram með staðfestingu Barrett í embætti. Þau höfðu fram að þessu gert ráð fyrir að ekki væri ákvörðunarbær meirihluti til staðar nema að minnsta kosti tveir fulltrúar minnihlutans væru viðstaddir.
Lindsey Graham, formaður nefndarinnar úr röðum repúblikana, sagði Barrett eiga skilið að vera skipuð dómari og að þingið myndi staðfesta hana. Sagði hann demókrata hafa „valið að taka ekki þátt“.
Þegar Barrett verður staðfest í embætti verða dómarar sem repúblikanar skipuðu komnir í öruggan meirihluta í hæstarétti, sex gegn þremur sem voru skipaðir af forsetum úr röðum demókrata. Þannig gæti dómurinn tekið skarpa hægri beygju til næstu áratuganna. Barrett er talin verða á meðal íhaldssömustu dómaranna við réttinn.
Innan við tvær vikur eru nú til forseta- og þingkosninga í Bandaríkjunum. Töluverðar vangaveltur hafa verið uppi um að nái Joe Biden kjöri sem forseti og demókratar vinni meirihluta í öldungadeildinni gætu þeir reynt að bæta við dómurum við hæstarétt til að jafna hlutföll á milli íhaldssamra og frjálslyndar dómara.
Í viðtali við 60 mínútur sem á að birtast um næstu helgi vildi Biden ekki ganga svo langt en sagðist ætla að koma á fót þverpólitískum starfshópi sem eigi að skila tillögum að umbótum á réttarkerfinu og dómaraskipunum verði hann forseti.
🚨THIS ANSWER will drive *a lot* of convo today ... BIDEN says he’ll create a “national commission” to create a plan “as to how to reform the court system”
— Jake Sherman (@JakeSherman) October 22, 2020
This is part of his intvw w @NorahODonnell on @60Minutes pic.twitter.com/X78BmAW6Hy