Skoðun

Rann­saka þarf inn­flutning land­búnaðar­vara

Líneik Anna Sævarsdóttir skrifar

Stjórnskipunar og eftirlitsnefnd hefur fjallað um misræmi í tölum ESB um útflutning á landbúnaðarvörum til Íslands og innflutningstölum Hagstofu Íslands á tveimur fundum, að frumkvæði þingmanna Framsóknarflokksins. Undirrituð situr í nefndinni fyrir hönd Framsóknarflokks og er verulega umhugað um þessi mál.

Umfjöllun nefndarinnar hefur nú þegar sýnt fram á að það þarf að bæta verklag við tollafgreiðslu matvöru, það þarf að yfirfara alla tollskrána fyrir matvæli og gæta betur að samræmi við alþjóðatollskrá því það er allra hagur að tollflokkun sé rétt. Allir tollasamningar byggja á því að alþjóðleg tollskrá tryggi samræmi milli landa. Það ætti því ekki að vera flókið að bæta verklag. Nefndin mun halda áfram umfjöllun um málið og kalla eftir frekari upplýsingum frá tollayfirvöldum um verklag og framkvæmd.

Ostur tollaður sem jurtaostur

Nefndinni barst minnisblað frá Bændasamtökum Íslands, þar kemur fram að árið 2019 hafi verið flutt inn mikið af jurtaosti og grunsemdir vöknuðu um að það væri vara þar sem uppistaðan væri mozarella ostur úr kúamjólk. Bændasamtök Íslands hafa snúið sér til fjármálaráðuneytisins sem nú hefur brugðist við. Fram til þessa hefur þessi ostur verið fluttur inn án tolla, en fjármálaráðuneytið hefur nú tekið af allan vafa um að ostur af þessu tagi fellur í tollflokk sem ber toll hér á landi.

Árið 2019 nam innflutningur á þessum osti 299 tonnum, til framleiðslunnar þarf um 3.000.000 lítra af mjólk en það svarar til ársframleiðslu 8-10 íslenskra kúabúa. Tollur af þessum osti gæti numið 200- 300 milljón kr. það árið þ.e. tekjur sem ættu að renna í ríkissjóð. Það hefur líka komið fram að yfirvöld tollamála hafa heimild til endurákvörðunar tolla allt að 6 ár aftur í tímann ef vara reynist hafa verið ranglega afgreidd. Ekki hefur verið staðfest hvað veldur þessu misræmi.

Yfirvöld tollamála þurfa að bregðast við

Skýringar geta vissulega legið í ýmsu, en ég legg mikla áherslu á yfirvöld tollamála bregðist við, rannsaki málin aftur í tímann og tryggi að hér eftir verði þessi ostur og önnur matvara sem flutt er til Íslands flokkuð í réttan tollflokk í samræmi við alþjóðlega tollskrá. Það verður að bregðast hratt við.

Áfram veginn og veljum íslenskt.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×