Eyjamenn hafa kvatt þrjá leikmenn, í bili að minnsta kosti, en þetta staðfestir Fótbolti.net í kvöld.
Þeir Gary Martin, Bjarni Ólafur Eiríksson og Jack Lambert munu ekki spila síðustu tvo leikina í Lengjudeildinni segir í fréttinni.
Gary og Jack munu báðir halda heim til Englands. Jack kom til ÍBV í sumar en Gary gekk í raðir ÍBV á síðustu leiktíð.
Hann raðaði inn mörkunum í Pepsi Max deildinni og þrátt fyrir að ÍBV hafi fallið varð hann markakóngur. Ekki hefur gengið eins vel í Lengjudeildinni.
Bjarni Ólafur kom einnig til Eyjamanna fyrir þessa leiktíð en óvíst er hvort að hinn 38 ára gamli Bjarni spili fótbolta á næstu leiktíð.
Bjarni Ólafur yfirgefur ÍBV - Gary fer um helgina https://t.co/QweOihI4Zy
— Fótbolti.net (@Fotboltinet) October 22, 2020
Eyjamenn hafa valdið vonbrigðum í Lengjudeildinni. Þeir eru í 6. sæti, tólf stigum á eftir Leikni sem er í öðru sætinu, en tvö efstu liðin fara upp.
Síðustu tveir leikir liðsins í Lengjudeildinni eru gegn Leikni Fáskrúðsfirði á útivelli og Fram á heimavelli, þann 14. nóvember.
Liðið er þó komið í undanúrslit Mjólkurbikarsins en óvíst er hvenær sú keppni fer fram.