Svo gæti farið að vetni framleitt hér á landi verði að útflutningsvöru en Landsvirkjun og hafnaryfirvöld í Rotterdam í Hollandi hafa undirritað viljayfirlýsingu um að farið skuli í forskoðun á fýsileika þess að flytja út grænt vetni. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Yfirlýsingin felur í sér að aðilarnir deili þekkingu og reynslu með það í huga að finna flöt á samvinnu og leita tækifæra í vetnismálum, eins og það er orðað í blaðinu.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir í samtali við blaðið að markaður fyrir grænt vetni á meginlandi Evrópu verði án efa gríðarstór í fyllingu tímans og að samkomulagið muni gera Landsvirkjun kleift að fylgjast með þeirri þróun og taka þátt frá upphafi.
Þá segir að Rotterdamhöfn sé stærsta höfn Evrópu og ein mikilvægasta orkuhöfn í heimi og að hafnafyfirvöld þar hafi sett fram metnaðarfull áform í þessum efnum en í þeim felst meðal annars að Rotterdam verði verði aðalinnflutningshöfn fyrir vetni til orkukaupenda í Evrópu.
Hollensk yfirvöld muni hafa falið Rotterdamhöfn að kortleggja hvar hægt væri að finna grænt vetni og því hafi böndin borist að Íslandi, segir enn fremur í blaðinu.