Lögreglan á Suðurlandi og Vinnueftirlit ríkisins rannsaka hvað gerðist þegar jarðýta féll til jarðar úr mikilli hæð í malarnámu í Þrengslunum í fyrrinótt. Karlmaður á sextugsaldri lést í slysinu.
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir málið í rannsókn og litlar upplýsingar að veita að sinni. Óskað sé eftir upplýsingum frá vegfarendum um Þrengsla veg frá klukkan 23 á miðvikudagskvöld og til morguns.
Brynjar Þór Jónasson, sviðsstjóri öryggis- og tæknisviðs hjá Vinnueftirlitinu, segir rannsókn þess á byrjunarreit.

„Við erum engu nær,“ segir Brynjar. Hans fólk skoði vettvanginn í dag þar sem meðal annars verði gerðar mælingar á fallhæðinni.
Hinn látni var að störfum hjá GT verktökum umrædda nótt.
„Það er þannig þegar við vinnum vaktavinnu að þá er bara einn á tækinu á hverjum tíma sem vaktin er,“ sagði Gísli Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri GT verktaka í gær.
Ef í ljós komi að breyta þurfi verkferlum til að tryggja betur öryggi vinnufólks verði farið í þá vinnu.
Jarðýtan er sú stærsta sem Liebherr framleiðir, af tegundinni Liebherr PR776 Litronic. Hún vegur um 73 tonn.