Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti Íslands segir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafa flaskað á því að rækta samskipti við bandaríska þingið í aðdraganda þess að bandaríski herinn yfirgaf Ísland árið 2006.
Í Víglínunni með Heimi Má Péturssyni fréttamanni í dag segir Ólafur Ragnar frá fundi sínum með John Warner formanni hermálanefndar Bandaríkjaþings sem hefði getað beitt sér fyrir fjármögnun herstöðvarinnar hér. Hann sat í hermáladeild bandaríska þingsins og var um tíma formaður hennar í mörg ár. En sú nefnd ákvarðar fjárveitingar til allra bandarískra herstöðva í heiminum.

Warner var fyrrverandi eiginmaður Elísabetar Taylor kvikmyndastjörnu og áhrifavalds og var persónulegur vinur Dorritar Moussaieff eiginkonu forsetans. Ólafur Ragnar fylgdi konu sinni til fundar við Warner í Washington þar sem þau hafi rætt persónuleg mál.
„Þá snýr hann sér allt í einu að mér og segir: Ég er nú búinn að vera hér öll þessi ár og formaður í hermálanefndinni. Það hefur aldrei nokkur maður komið til mín að tala við mig um Ísland og mig rekur í rogastans. Þetta var helsta verkefni ríkisstjórnar Íslands að koma í veg fyrir að herinn færi og það hafði enginn talað við voldugasta manninn í öldungadeild Bandaríkjanna,” sagði Ólafur Ragnar í Víglínunni.
Davíð og Halldór hafi treyst á Charles E. Cobb sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi og Jeb Bush bróður George W. Bush forseta sem Davíð hafði einnig góð tengsl við. Í Víglínunni ræði Ólafur Ragnar þessi samskipti hans og Davíðs nánar sem og við aðra forsætisráðherra í forsetatíð hans. En hann segir einnig frá samskiptum sínum við ráð- og áhrifafólk víðs vegar um heiminn og stöðu Íslands í breyttum heimi að lokum kalda stríðsins.