Icelandair hefur á síðustu dögum dregið úr flugframboði sínu um allt að 30 prósent. Óvissa ríkir um háannatíma sumarsins en félagið gerir að óbreyttu ráð fyrir að draga úr flugframboði um að minnsta kosti 25 prósent miðað við það sem áður hafði verið kynnt.
Þetta kemur fram í tilkynningu fram Icelandair Group sendi á Kauphöllina rétt í þessu. Er það farið yfir stöðuna í tengslum við útbreiðslu kórónuveirunnar. Félagið segir ljóst að faraldurinn muni hafa neikvæð áhrif á sjóðstreymi félagsins og unnið sé að því að lágmarka þau áhrif, meðal annars með því að draga úr flugframboði og vinna með stéttarfélögum til að lækka launakostnað verulega
Í tilkynningunni segir að útbreiðsla COVID-19 veirunnar og yfirgripsmiklar ferðatakmarkanir hafi haft veruleg áhrif á eftirspurn á mörkuðum Icelandair og eru að hafa neikvæð áhrif á bókunarstöðu félagsins.
„Á síðustu dögum hefur félagið dregið úr flugframboði um allt að 30%. Líklegt er að dregið verði enn frekar úr flugframboði á meðan ferðatakmarkanir eru í gildi og staðan getur breyst hratt. Félagið heldur áfram að fylgjast grannt með stöðu mála og hefur gripið til ýmissa aðgerða í samráði við heilbrigðisyfirvöld til að tryggja heilsu og öryggi starfsfólks og farþega.
Óvissa ríkir um háannatíma sumarsins en félagið gerir að óbreyttu ráð fyrir að draga úr flugframboði um að minnsta kosti 25% miðað við það sem áður hafði verið kynnt. Félagið mun þó leggja áherslu á að viðhalda þeim sveigjanleika sem þarf til að geta brugðist hratt við eftir því hvernig eftirspurn þróast.
Fjárhagsleg áhrif vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar á starfsemi félagsins eru enn óviss. Lausafjárstaða félagsins nam rúmum 39 milljörðum króna (301,6 milljónum dala) í árslok 2019 og er á svipuðum stað í dag. Ljóst að útbreiðsla COVID-19 veirunnar muni hafa neikvæð áhrif á sjóðstreymi félagsins en unnið er að því að lágmarka þau áhrif, meðal annars með því að draga úr flugframboði og vinna með stéttarfélögum til að lækka launakostnað verulega,“ segir í tilkynningunni.