Sara Björk Gunnarsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins og Evrópumeistara Lyon, er ein af 20 bestu fótboltakonum Evrópu að mati fótboltatímaritsins FourFourTwo. Frá þessu er greint á mbl.is.
Leitað var til sérfræðinga til að velja bestu fótboltakonu í Evrópu 2020. Búið er að velja þær 20 bestu og sérfræðingarnir velja síðan þær fimm bestu úr þeim hópi.
Á lista FourFourTwo eru alls átta leikmenn sem léku með Lyon á þessu ári. Auk Söru eru það Lucy Bronze, Dzsenifer Marozsán, Eugenie Le Sommer, Wendie Renard, Amel Majri, Delphine Cascarino og Sarah Bouhaddi.
Sara varð tvöfaldur meistari með Wolfsburg í Þýskalandi áður en hún gekk í raðir Lyon í sumar. Hún varð Evrópumeistari með franska liðinu og skoraði eitt marka þess í 3-1 sigri á hennar gömlu félögum í Wolfsburg í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Sara vann einnig frönsku bikarkeppnina með Lyon.
Í fyrradag sló Sara leikjamet íslenska landsliðsins þegar hún lék sinn 134. landsleik þegar Ísland tapaði fyrir Svíþjóð, 2-0, í undankeppni EM.
Sara var ein þriggja sem var tilnefnd sem besti miðjumaður Meistaradeildarinnar tímabilið 2019-20. Verðlaunin féllu samherja hennar hjá Lyon, Dzsenifer Marozsán, í skaut.
Tuttugu bestu fótboltakonur Evrópu að mati FourFourTwo
- Alexia Putellas (Barcelona)
- Alexandra Popp (Wolfsburg)
- Amel Majri (Lyon)
- Bethany England (Chelsea)
- Christiane Endler (PSG)
- Debinha (North Carolina Courage)
- Delphine Cascarino (Lyon)
- Denise O’Sullivan (North Carolina Courage/Brighton)
- Dzsenifer Marozsán (Lyon)
- Eugenie Le Sommer (Lyon)
- Ewa Pajor (Wolfsburg)
- Guro Reiten (Chelsea)
- Ji So-yun (Chelsea)
- Lucy Bronze (Lyon/Man. City)
- Marie-Antoinette Katoto (PSG)
- Pernille Harder (Wolfsburg/Chelsea)
- Sara Björk Gunnarsdottir (Wolfsburg/Lyon)
- Sarah Bouhaddi (Lyon)
- Vivianne Miedema (Arsenal)
- Wendie Renard (Lyon)