Stjórnvöld í Belgíu hafa ákveðið að grípa til enn harðari samfélagslegra takmarkana en undanfarið hafa verið í gildi til þess að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Frá þessu greindi Alexander De Croo, forsætisráðherra landsins, á fréttamannafundi í dag.
Héðan í frá verður aðeins heimilt að fá eina manneskju í heimsókn til sín, sem er svokallaður „knústengiliður.“ Þar er um að ræða sömu manneskjuna í hvert skipti. Þeim sem búa einir er heimilt að eiga tvo „knústengiliði“ samkvæmt nýju reglunum.
Þá verður öllum verslunum, sem ekki eru taldar nauðsynlegar, lokað. Þó verður enn hægt að sækja vörur hjá verslunum. Þá verður hárgreiðslustofum, snyrtistofum og öðrum stofnunum sem ekki geta sinnt hlutverki sínu án líkamlegrar nálægðar, lokað. Það nær þó ekki yfir stofnanir sem sinna heilbrigðisþjónustu. Þá munu aðgerðirnar hafa veruleg áhrif á skólastarf.
Fólki verður áfram heimilt að safnast saman utandyra, með þeim skilyrðum að ekki séu fleiri en fjórir saman í hóp, og að fjarlægðartakmörk og grímunotkun séu viðhöfð.
„Landið okkar er statt í heilbrigðisneyðarástandi. Þrýstingurinn er mikill, eins og þið hafið eflaust séð á síðustu dögum. Þessa stundina höfum við aðeins um einn kost að velja. Það er að styðja eins þétt við bakið á heilbrigðiskerfinu okkar og við getum. Við verðum að draga eins mikið úr líkamlegum samskiptum og við getum,“ sagði De Croo á blaðamannafundinum í morgun.
Aðgerðirnar taka gildi á morgun, rétt eins og þær hertu aðgerðir sem stjórnvöld hérlendis kynntu í dag. Ráðgert er að þær gildi til 13. desember, en þær verða þó endurmetnar með tilliti til framgangs faraldursins þann 1. desember.
Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 392.000 manns greinst með kórónuveiruna í Belgíu og rúmlega 11.300 manns látist af völdum Covid-19. Dánartíðni vegna Covid-19 í landinu er ein sú hæsta í heiminum, en fyrir hverja milljón íbúa hafa 974 látist úr sjúkdóminum.