Valsmenn urðu í kvöld Íslandsmeistarar í knattspyrnu er Knattspyrnusamband Íslands ákvað að Íslandsmótum karla og kvenna yrði hætt. Valur var með örugga forystu á toppi Pepsi Max deildar karla og eru því Íslandsmeistarar.
Fögnuðu þeir titlinum í Fjósinu, samkomuhúsi sínu, nú í kvöld eins og sjá má á myndinni hér að ofan sem og í myndbandinu hér að neðan.
Þó enn hafi verið fjórar umferðir eftir af Íslandsmóti karla og Valur ekki formlega orðið meistari er ljóst að menn voru undirbúnir fyrir komandi fagnaðarlæti. Hannes Þór Halldórsson, markvörður Vals og íslenska landsliðsins, birti mynd af sér á Instagram-síðu sinni með grímu sem stóð einfaldlega á „Íslandsmeistarar 2020.“
„Þetta er náttúrulega algjört einsdæmi, að mótinu sé bara hætt. Ég vil samt meina að við séum verðugir meistarar þrátt fyrir að við hefðum viljað – leikmenn og allir í kringum félagið – klára Íslandsmótið. En það var svo sem ekki í okkar höndum að gera það. Finnst við þó engu að síður verðugir Íslandsmeistarar,“ sagði Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði liðsins, í viðtali við Vísi fyrr í kvöld.