Eftir jafnteflið við Verona í gær, 2-2, sagði Zlatan Ibrahimovic eiginlega af sér sem vítaskytta AC Milan.
Zlatan skaut yfir úr vítaspyrnu í stöðunni 1-2 fyrir Verona. Svíinn hefur núna klúðrað þremur af fimm vítum sem hann hefur tekið á tímabilinu. Og hann segist ekki ætla að taka fleiri víti fyrir Milan, allavega ekki í bráð.
„Ég klikkaði á víti og held að ég láti [Franck] Kessie taka það næsta. Það er betra,“ sagði Zlatan eftir leikinn gegn Verona í gær.
Zlatan bætti reyndar upp fyrir vítaklúðrið þegar hann jafnaði fyrir Milan í uppbótartíma. Hann skallaði þá fyrirgjöf Brahims Díaz í netið.
Zlatan hefur skorað í öllum fimm leikjum sínum með Milan í ítölsku úrvalsdeildinni, alls átta mörk. Hann er markahæstur í deildinni.
Milan fer inn í landsleikjahléið með tveggja stiga forskot á toppi ítölsku deildarinnar. Milan hefur unnið fimm af fyrstu sjö deildarleikjum sínum og gert tvö jafntefli.
Mörkin úr leik Milan og Verona má sjá hér fyrir neðan.