Verslunin Pukinn.com greinir frá því á Facebook-síðu sinni að brotist hafi verið inn í húsnæði hennar síðastliðna nótt og mikið magn af nýjum snjóbrettaskóm tekið ófrjálsri hendi.
Í færslunni segir að um sé að ræða skó af gerðinni DC Travis Rice, Judge og Shuksan, í hinum ýmsu stærðum. Með færslunni fylgir mynd af skótegundunum sem um ræðir.
„Við værum þakklát ef þið mynduð hafa augun opin. Endilega hafið samband við okkur eða lögregluna beint í síma 444-1000 ef þið hafið ábendingar varðandi málið,“ segir í færslu verslunarinnar.