Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú til rannsóknar umfangsmikið mál sem snýr að meintum fjársvikum og peningafölsun. Sjö erlendir ríkisborgarar voru handteknir vegna þessa í umdæminu í síðustu viku og færðir til yfirheyrslu. Talið er að um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Í tilkynningu segir að nokkrir til viðbótar hafi verið yfirheyrðir í tengslum við málið, auk þess sem lögregla hafi ráðist í tvær húsleitir í þágu rannsóknarinnar.
Grunur sé um að hópurinn hafi framvísað fölsuðum peningaseðlum í allmörg skipti og einnig svikið út peninga með því að komast yfir greiðslukort og PIN-númer hjá viðskiptavinum öldurhúsa.
„Lögreglan hvetur því fólk til að gæta að sér þegar PIN-númer eru slegin inn og eins að upplýsingar um PIN-númer séu ekki geymdar með greiðslukortum. Og sömuleiðis að starfsfólk við afgreiðslukassa sé á varðbergi vegna falsaðra peningaseðla,“ segir í tilkynningu lögreglu.