Ákveðið var að sjópróf skyldi fara fram vegna hópsýkingar kórónuveiru um borð í togaranum Júlíusi Geirmundssyni þegar mál vegna þess var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Stéttarfélög áhafnarinnar fóru fram á sjópróf.
Ríkisútvarpið segir að Sveinn Geir Arnarsson, skipstjóri á togaranum, hafi mótmælt því harðlega að sjópróf færi fram og sakað stéttarfélögin um að reyna að standa fyrir opinberri auðmýkingu í sinn garð. Sjóprófið eigi að fara fram á Ísafirði mánudaginn 23. nóvember.
Tuttugu og tveir skipverjar af tuttugu og fimm greindust smitaðir af kórónuveirunni fljótlega eftir að togarinn lagði á haf út í síðasta mánuði. Skipið var áfram að veiðum í þrjár vikur þrátt fyrir að nokkrir um borð hefðu veikst heiftarlega.
Stéttarfélögin kærðu framgöngu Hraðfrystihússins Gunnvarar til lögreglu vegna meðferðarinnar á skipverjunum.
Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar, bar því við að veiran væri ný af nálinni og „það þekkti enginn þetta covid“ í viðtali við Vísi 25. október. Viðurkenndi hann að útgerðin hefði vanmetið aðstæður um borð.