Alfons Sampsted er einn þeirra leikmanna úr U-21 árs landsliðinu sem var kallaður inn í A-landsliðið fyrir leikinn gegn Englandi í Þjóðadeildinni á morgun. Þeir Atli Viðar Björnsson og Davíð Þór Viðarsson telja að hann verði næsti hægri bakvörður íslenska landsliðsins.
Alfons er byrjunarliðsmaður hjá verðandi Noregsmeisturum Bodø/Glimt. Hann kom til liðsins frá Norrköping fyrir tímabilið.
„Það er magnað að Bodø/Glimt sé að verða meistari. Hann spilar hverja einustu mínútu þar og er víst búinn að spila mjög vel. Ég hef séð hann í þessum leikjum með U-21 árs landsliðinu þar sem hann hefur verið virkilega flottur,“ sagði Davíð Þór eftir leik Íslands og Danmerkur á sunnudaginn þar sem þeir Atli Viðar og Kjartan Atli Kjartansson ræddu um U-21 árs leikmennina sem voru kallaðir inn í A-landsliðið.
„Hann er hægri bakvörður í besta liðinu í Noregi. Birkir Már [Sævarsson] á ekki mikið eftir, Guðlaugur Victor [Pálsson] er miðjumaður og við munum pottþétt nota hann á miðjunni í næstu undankeppni. Okkur vantar hægri bakvörð og þarna held ég að lausnin sé,“ sagði Davíð Þór um Alfons.
Atli Viðar vill að Alfons fái tækifæri gegn Englandi og hann taki í kjölfarið við stöðu hægri bakvarðar í íslenska landsliðinu.
„Það er klárt mál. Það á að spila þessum gæja. Hann á að stíga inn í A-landsliðið núna og fá stöðuna í næstu leikjum og spila sig inn í þetta,“ sagði Atli Viðar.
Alfons, sem er 22 ára, hefur leikið tvo leiki með A-landsliðinu, gegn Kanada og El Salvador í janúar á þessu ári.