Innlent

Mæðgur dæmdar fyrir kókaín­inn­flutning

Atli Ísleifsson skrifar
Mæðgurnar fluttu fíkniefnin til landsins í flugi frá Brussel í ágúst síðastliðnum.
Mæðgurnar fluttu fíkniefnin til landsins í flugi frá Brussel í ágúst síðastliðnum. Vísir/vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt franskar mæðgur í átta mánaða fangelsi fyrir innflutning á rúmlega 400 grömmum af kókaíni sem þær fluttu til landsins með flugi frá Brussel í ágúst síðastliðinn.

Í ákæru kom fram að önnur þeirra hafi flutt rúmlega 100 grömm af kókaíni í fimm hylkjum innvortis, en hin rúmlega 300 grömm af efninu í sex hylkjum og að efnin hafi verið ætluð til sölu í ágóðaskyni.

Mæðgurnar játuðu sök í málinu, en við ákvörðun refsingar var til þess litið að ákærðu hafi haldið því fram að þær hafi ekki verið eigendur fíkniefnanna, en tekið að sér að flytja þau hingað til lands gegn þóknun. Taldi dómurinn ekki efni til að draga þá frásögn í efa.

„Þar sem þær stóðu hins vegar sameiginlega að undirbúningi og innflutningi fíkniefnanna er þáttur þeirra beggja við framningu brotsins lagður að jöfnu og refsing ákveðin samkvæmt því. Til refsimildunar verður til þess litið að báðar játuðu þær greiðlega sakargiftir fyrir dómi,“ segir í dómnum.

Var refsing ákveðin fangelsi í átta mánuði, þar sem gæsluvarðhaldtími kemur til frádráttar. Mægðurnar voru jafnframt dæmdar til greiðslu þóknunar til skipaðra verjenda og greiðslu sakarkostnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×