Erlent

Tvennum sögum fer af leynifundi Netanjahús og MBS

Samúel Karl Ólason skrifar
Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, og Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu.
Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, og Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu. Vísir/AP

Yfirvöld í Sádi-Arabíu segja ekkert að marka fréttir um að Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, hafi ferðast til konungsríkisins í gær og átt þar leynilegan fund með krónprinsinum Mohammed bin Salman. Það er þrátt fyrir að ýmsir aðilar hafi þegar staðfest að fundurinn hafi átt sér stað.

Fjölmiðlar í Ísrael hafa haldið því fram að forsætisráðherrann hafi farið á fund með krónprinsinum, sem í daglegu tali er oft kallaður MBS, og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Vitað er að MBS og Pompeo hittust, auk annarra embættismanna, en Netanjahú er sagður hafa flogið til Sádi-Arabíu með einkaþotu og að Yossi Cohen, yfirmaður Mossad, leyniþjónustu Ísrael, hafi verið með honum, samkvæmt Times of Israel.

Heimildarmaður Wall Street Journal staðfesti þær fregnir svo og sagði fundinn hafa staðið yfir í nokkrar klukkustundir og snúið að Íran og mögulegum opinberum samskiptum Ísrael og Sádi-Arabíu.

Times of Israel hefur einnig eftir Yoav Gallant, menntamálaráðherra Ísrael, að fundurinn hafi átt sér stað. Netanjahú sjálfur hefur ekki viljað tjá sig um fregnirnar.

Prinsinn Faisal bin Farhan, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, tísti svo um málið í dag og sagði að engir Ísraelar hefðu verið á fundinum. Hann er sjálfur sagður hafa verið á fundinum.

AP fréttaveitan segir að FlightRadar24.com sýni að einkaþotu hafi verið flogið frá Tel Aviv á sunnudaginn og henni hafi verið lent í Neom í Sádi-Arabíu, þar sem MBS og Pompeo voru á fundi. Flugvélinni var svo flogið sömu leið til baka þremur klukkustundum síðar.

Bandarískir blaðamenn voru með Pompeo á ferðalagi hans en hann skildi þá eftir á flugvellinum í Neom þennan dag.

AP fréttaveitan segir einnig að Salman konungur hafi sett stofnun sjálfstæðs ríkis í Palestínu vera forsendu fyrir því að Sádar hefji opinber samskipti við Ísrael. MBS er talinn vera opnari fyrir því að hefja samskipti við Ísrael án lausnar á deilum Ísraela og Palestínumanna.

Sameinuðu arabísku furstadæmin og Barein hafa þegar opnað á formleg samskipti við Ísrael á undanförnum mánuðum og eftir mikla viðleitni erindreka Donald Trumps.

Bandaríkin hafa einnig miðlað málum á milli Ísrael og Líbanon en ríkin samþykktu nýverið að hefja viðræður um deilur um lögsögu ríkjanna. Nágrannaríkin tvö hafa háð nokkrar styrjaldir í gegnum tíðina og eru tæknilega séð enn í stríði og deila einnig um landamæri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×