Átta leikir fóru fram í Meistaradeild Evrópu í gær en leikið var í E-H riðlum.
Bruno Fernandes skoraði tvö mörk þegar Manchester United sigraði Istanbul Basaksehir í H-riðli, 4-1. Fyrra mark hans var glæsilegt en hann skoraði þá með þrumuskoti fyrir utan vítateig.
United er á toppi H-riðils með níu stig og nægir eitt stig úr síðustu tveimur leikjum sínum í riðlakeppninni til að komast áfram í sextán liða úrslit.
Juventus tryggði sér farseðilinn í sextán liða úrslitin með dramatískum 2-1 sigri á Ferencváros á heimavelli. Álvaro Morata skoraði sigurmark ítölsku meistaranna þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.
Juventus er með níu stig í G-riðli, einu stigi á eftir toppliði Barcelona sem vann 0-4 útisigur á Dynamo Kiev.
Erling Håland halda engin bönd þessa dagana og hann skoraði tvívegis þegar Borussia Dortmund vann Club Brugge, 3-0, á Westfalen leikvanginum í F-riðli. Håland er markahæstur í Meistaradeildinni í vetur með sex mörk.
Mörkin úr leikjum United og Istanbul, Juventus og Ferencváros og Dortmund og Club Brugge má sjá hér fyrir neðan.

Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.