Myrto Uzuni, leikmaður Ferencváros, hermdi eftir fagni Cristianos Ronaldo þegar hann kom ungversku meisturunum yfir gegn Juventus í Meistaradeild Evrópu í gær.
Á 19. mínútu skoraði Uzuni og fagnaði með hoppi eins og Ronaldo gerir venjulega. Uzuni virðist vera mikill aðdáandi Ronaldos því eftir leikinn bað hann Portúgalann um treyju hans.
Ferencvarosi's Myrto Uzuni celebrated like Cristiano Ronaldo after scoring against Juventus yesterday.
— FutbolBible (@FutbolBible) November 25, 2020
Uzuni then asked Cristiano for his kit at full-time. A dream come true for the 25-year old. pic.twitter.com/o2K5Sa2CIf
Hvort fagn Uzunis kveikti í Ronaldo eða ekki skal ósagt látið en hann jafnaði allavega metin á 35. mínútu með skoti af löngu færi.
Þetta var fyrsta Meistaradeildarmark Ronaldos á tímabilinu og hans 131. í keppninni á ferlinum. Portúgalinn er markahæstur í sögu Meistaradeildarinnar.
Þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Álvaro Morata sigurmark Juventus með skalla eftir fyrirgjöf Juans Cuadrado.
Með markinu tryggði Morata Juventus ekki bara stigin þrjú heldur einnig sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
Mörkin úr leiknum má sjá hér fyrir neðan.