Kvenfélagskonur um allt land nýttu nóttina við bakstur í stað þess að sofa en nú stendur yfir áheitabakstur í einn sólarhring þar sem konurnar baka í fjarbakstri heimavið. Kvenfélagskonu í uppsveitum Árnessýslu bökuðu til dæmis þúsund kleinur í gærkvöldi, auk þess að baka rúgbrauð í hver í Laugarási.
Áheitabaksturinn hófst klukkan 18:00 í gær og stendur til 18:00 í dag. Með bakstrinum eru kvenfélagskonur að styðja við söfnunina „Gjöf til allra kvenna á Íslandi“ en þar er verið að safna fyrir tækjakosti og hugbúnaði þeim tengdum, þ.e. rafrænar tengingar við sérfræðinga kvennadeildar Landsspítalans og stuðla þannig að bættri heilsuvernd kvenna um land allt.
Baksturinn er líka í tilefni af 90 ára afmæli Kvenfélagasambands Íslands.
Bakað er í deilieldhúsinu Eldstæðið í Kópavogi, sem er fullvottað eldhús og á heimilum kvenfélagskvenna um allt land.
Elínborg Sigurðardóttir, formaður Sambands sunnlenskra kvenna og hennar konur í uppsveitum Árnessýslu láta ekki sitt eftir liggja í bakstrinum.
„Já, það er rétt, ég til dæmis fór í gærkvöldi ásamt nokkrum kvenfélagskonum í eldhúsið í Skálholti, fékk þar inni og við steiktum þar um þúsund kleinur og svo fór ég með tuttugu rúgbrauð í hverapott hér í nágrenninu við mig í Laugarási og seyddi þau þar í nótt, þau þurfa tuttugu og fjóra tíma og ég var að taka upp rúgbrauð og fara með þessar kleinur og er komin til Reykjavíkur með þetta allt saman,“ segir Elínborg.

Elínborg segir að það sé búið að baka mikið af löglegum sörum í vottaða eldhúsinu í Kópavogi, enda sé búið að panta mikið af þeim og þá séu marens botnar mjög vinsælir, svo ekki sé minnst á fjölbreytt úrval af smákökum.
„Svo ætlum við að selja þetta í dag, bæði í Jólaþorpinu í Hafnarfirði og í Eldstæðinu í Kópavogi, sem stendur við Nýbýlaveg og svo er líka hægt að panta og fá heimsent á höfuðborgarsvæðinu gegn vægu gjaldi.“
