SVT greinir frá málinu en búið er að tilkynna fjölda nemenda í framhaldsskóla í bænum til lögreglu. Eru nemendurnir sagðir hafa reynt að hafa uppi á smituðum einstaklingum, reynt að smitast sjálfir og svo reynt smita fleiri.
Nemendurnir eru sagðir hafa reynt að smitast sjálfir til að geta fagnað stúdentsprófunum almennilega líkt og hefð er fyrir í Svíþjóð.
Haft er eftir Monicu Sandström, formanni nemendafélagsins í Jämtlands Gymnasium, að hún kannist ekki við þessa hegðun nemenda, en að vitað sé að fjölmargir séu þreyttir á fjarkennslu og samkomutakmörkunum. Viti hún til þess að margir hafi sagst vona að þeir myndi mótefni til að geta fagnað lokum framhaldsskólans í vor. Hún hafi þó túlkað allt slíkt tal sem grín.
Hún fordæmir þá hegðun sem einhverjir kunni nú að vera grunaðir um og segir hana sýna „ótrúlegt tillitsleysi“ í garð annarra.
SVT segir að enn sem komið sé sé enginn nemandi með stöðu grunaðs manns, en að málið sé og verði áfram til rannsóknar hjá lögreglu.