Það eru rúm fjögur ár frá því Hjálpræðisherinn kvaddi höfuðstöðvar sínar í miðborginni í rúm hundrað ár og hefur síðan rekið starfsemi sína í mun minna húsnæði í Breiðholti. En nú er allt að verða tilbúið í nýju og glæsilegu húsi hersinis við Suðurlandsbraut sem Hjördís Kristinsdóttir liðsforingi Hjálpræðishersins í Reykjavík vonast til að hægt verði að opna á mánudag.

„Það er heilmikil þörf. Við höfum verið að sinna þessum jaðarsettu hópum. Fólki sem er bæði félagslega einangrað og býr við fátækt,“ segir Hjördís. Við opnun eldhússins verði hægt að bjóða fólki hvern virkan dag upp á heitan mat.
„En svo bætist náttúrlega við í þessu nýja húsi aðstaða fyrir fólk til að komast í sturtu og fólk getur þvegið af sér fötin. Þannig að þetta verður miklu viðameira en það sem við höfum getað verið að bjóða upp á að undanförnu,“ segir Hjördís.

Vegna covid verða fulltrúar hersins ekki á ferli með árlega söfnunarbauka fyrir jólin en skiltum með QR-kóða verður komið fyrir á fjölförnum stöðum þar sem fólk getur tekið eintak af Herópinu og greitt fyrir valda upphæð með símanum. Um eitt til tvö hundruð manns með fjölbreyttan bakgrunn sækir aðstoð Hjálpræðishersins á hverjum degi.
„Við erum með fólk sem er heimilislaust, fólk sem er í neyslu, við erum með aldraða og öryrkja. Við erum með fólk sem eru nýjir Íslendingar nýkomnir með kennitölu. Bara alla flóru mannkynsins myndi ég segja,“ segir Hjördís.
Hún vonar að covid muni ekki trufla hinn árlega jólakvöldverð og hann geti farið fram með hefðbundnum hætti eða þá í skiptum sóttvarnarhólfum.
„Þriðji kosturinn sem væri sá alversti væri sá að við þyrftum að láta fólk koma og sækja matarbakka og pakka í poka.“
En það er alveg klárt að það verður eitthvað gert?
„Já við munum mæta okkar hópi. Það er alveg ljóst,“ segir Hjördís Kristinsdóttir.