Í skemmu við höfnina á Flateyri voru þau Sæbjörg Freyja Gísladóttir og maður hennar Eyvindur Atli Ásvaldsson að búa sendingu til kaupenda. Varan er endurunnið salt.
„Salt frá fiskvinnslum, meðal annars Odda frá Patreksfirði. Við erum að endurnýta salt sem annars væri hent, sem er búið að nota í fisk, og steypa úr því saltbætifötur fyrir skepnur,“ segir Sæbjörg Freyja, forstjóri Kalksalts, í fréttum Stöðvar 2.

Þau blanda svo í saltið allskyns bætiefnum, eins og vítamínum, kalkþörungum, melassa og hvítlauk.
„Þetta er fyrir sauðfé, nautgripi og hesta. Og einstaka geitur hafa fengið þetta líka,“ segir Eyvindur Atli, sem er kokkur á Hótel Ísafirði að aðalstarfi, en kallar sig þrælinn í þessu verkefni.
Þau keyptu fyrirtækið í fyrra og keppa við innflutta saltsteina.

„Allar aðrar bætiefnafötur og saltsteinar eru innflutt. Þessvegna er fyrirtækið okkar bara á fljúgandi siglingu núna. Af því að bændur – og allir – við viljum versla bara íslenska vöru,“ segir Sæbjörg.
Meira í frétt Stöðvar 2: