Viðskipti innlent

Segir til­slakanir hafa gríðar­lega þýðingu fyrir rekstrar­aðila

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Rekstraraðilar í Smáralind hefur undanfarnar vikur þurft að takmarka fjölda í verslunum. Tilslakanir sem hafa verið boðaðar heimila fleiri inni í verslunum sem markaðsstjóri Smáralindar segir skipta gríðarlegu máli nú á jólavertíðinni.
Rekstraraðilar í Smáralind hefur undanfarnar vikur þurft að takmarka fjölda í verslunum. Tilslakanir sem hafa verið boðaðar heimila fleiri inni í verslunum sem markaðsstjóri Smáralindar segir skipta gríðarlegu máli nú á jólavertíðinni. Vísir/Vilhelm

Verslunareigendur eru nokkuð ánægðir með tilslakanir, sem boðaðar voru af heilbrigðisráðherra í dag, enda skiptir það miklu máli þegar jólaverslun er við það að fara á fullt. Tinna Jóhannsdóttir markaðsstjóri Smáralindar segir það skipta miklu máli fyrir rekstraraðila að geta sinnt jólavertíðinni með sem eðlilegustum hætti.

„Þetta hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir verslunaraðila sem eru í húsinu sem hafa átt í dálitlum vandræðum við að hafa tíu aðila inni í sínu verslunarrými hverju sinni. Jólavertíðin er auðvitað aðal tími ársins hjá öllum rekstraraðilum hérna í húsinu og stærsti hluti veltunnar yfir árið er að koma inn í desember,“ sagði Tinna í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Hún segir þessar breytingar skipta verulegu máli fyrir húsið og þá sérstaklega fyrir rekstraraðila.

„En líka viðskiptavinina því auðvitað er töluvert skemmtilegra að stunda viðskipti þegar þú þarft ekki að standa í röð fyrir utan búðina í jafnvel 45 mínútur eins og við erum búin að horfa á hérna síðustu daga,“ segir Tinna.

Hún segir upplifun viðskiptavina vonandi batna eftir breytingarnar.

„Það er klárlega ekki eins skemmtilegt eins og ef maður gæti labbað beint inn í verslanir eins og við gátum hérna áður fyrr. Auðvitað hefur þetta verið skrítinn tími en þetta er vonandi að líða hjá og jólaverslunin og jólavertíðin er auðvitað skemmtilegasti tími ársins hérna í húsinu þannig að við erum rosalega ánægð með ákvörðun stjórnvalda að liðka aðeins til í þessa áttina til þess að jólaverslunin geti átt sér góðan stað þetta árið,“ segir Tinna.


Tengdar fréttir

Margir vonuðust eflaust eftir 20 manna fjölda­mörkum

Heilbrigðisráðherra segir að margir hefðu eflaust viljað að fjöldamörk samkomubanns yrðu hækkuð í tuttugu manns með nýjum sóttvarnareglum sem taka gildi á fimmtudag. Faraldurinn sé hins vegar á viðkvæmum stað og stíga þurfi varfærin skref.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×