Þetta þýðir að konur geta ekki gengist undir þungunarrof jafnvel þegar um alvarlega fósturgalla er að ræða.
Niðurstaðan nýtur ekki almenns stuðnings meðal Pólverja en íhaldssöm öfl innan ríkisstjórnarinnar hafa löngum sótt að réttinum til þungunarrofs.
„Við munu leitast við að tryggja að jafnvel þegar um er að ræða afar erfiðar þunganir; þegar barnið mun ótvírætt deyja, mikið afmyndað.. að þeim ljúki með fæðingu til að hægt sé að skíra barnið, greftra það og gefa því nafn,“ sagði Jaroslaw Kaczynski, formaður Laga og reglu árið 2016.
250 ferðast út fyrir landsteinana til að sækja þjónustuna
Vegna mikillar andstöðu hefur niðurstaða dómstólsins hins vegar ekki enn verið lögfest en áhrifanna er þegar farið gæta meðal pólskra kvenna, að sögn Justyna Wydrzynska hjá samtökunum Abortion Dream Team.
Hringingum til samtakanna hefur fjölgað úr 20 til 30 á dag í kringum 100, meðal annars frá konum sem eru að bíða eftir niðurstöðum fósturskimana og konum sem eru ekki þungaðar en óttast afleiðingar dómsins.
„Þær vilja vita hvaða valkostir eru í stöðunni ef þær verða óléttar og það greinast fósturgallar,“ segir hún.
Abortion Dream Team tilheyra hóp samtaka sem hafa stofnað sjóð til að hjálpa pólskum konum að ferðast erlendis til að gangast undir þungunarrof. Sjóðurinn var settur á laggirnar í fyrra og hefur þegar aðstoðað 250 konur sem í flestum tilvikum ferðast til Þýskalands, Hollands eða Bretlands.
Niðurstaðan hefur einnig orðið til þess að einstaklingar og samtök í nágrannalöndunum, til dæmis Tékklandi, hafa leitað leiða til að aðstoða.