Enskir fjölmiðlar greina frá því að Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton, hafi augastað á tveimur miðjumönnum Tottenham, Alli og Harry Winks, og vilji fá annan þeirra þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður á ný í næsta mánuði.
Alli hefur fengið fá tækifæri með Spurs í vetur og aðeins komið við sögu í þremur leikjum í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur verið orðaður við brottför frá félaginu en auk Everton hefur Paris Saint-Germain áhuga á honum.
Ef Alli eða Winks kæmu til Everton myndi Gylfi Þór Sigurðsson fá enn meiri samkeppni. Everton keypti þrjá miðjumenn í sumar, Allan, James Rodríguez og Abdoulaye Doucoure, og samkvæmt nýjustu fréttum vill Ancelotti fá enn fleiri miðjumenn.
Gylfi lék afar vel og skoraði sigurmark Everton gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á laugardagskvöldið. Það var hans fyrsta deildarmark á tímabilinu.