Fótbolti

Noregs- og bikar­meistarinn Ingi­björg í liði ársins | Mynd­band

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir var í dag valin í lið ársins hjá norsku fréttastofunni NTB.
Ingibjörg Sigurðardóttir var í dag valin í lið ársins hjá norsku fréttastofunni NTB. Vålerenga

Landsliðsmiðvörðurinn Ingibjörg Sigurðardóttir var valin í lið ársins í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hjá fréttastofunni NTB.

Ingibjörg var sem klettur í vörn norska liðsins Vålerenga sem náði sínum besta árangri frá upphafi í ár. Liðið varð Noregsmeistari ásamt því að vinna bikarinn. 

Þá er liðið komið í 32-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu en viðureign þeirra við danska liðið Bröndby hefur verið frestað fram í febrúar vegna kórónufaraldursins.

Ingibjörg var á dögunum valin leikmaður ársins af leikmönnum og þjálfurum deildarinnar. Það var skömmu fyrir bikarúrslitaleikinn og hélt hún að þjálfari liðsins ætlaði ef til vill að setja sig á bekkinn í úrslitaleiknum.

Það var aldeilis ekki, spilaði hún allan leikinn og átti þátt í því að Vålerenga vann tvöfalt. Var þetta fyrsta tímabil Ingibjargar í norska boltanum.

Fréttastofa NTB var ekki alveg sammála en þar er Ingibjörg í 6. til 8. sæti yfir besta leikmann ársins. Emilie Haavi hlaut þann titil en hún leikur með Lilleström, liðið sem Vålerenga vann 2-0 í framlengdum úrslitaleik bikarsins.

Haavi fékk 6.17 í meðaleinkunn hjá NTB á meðan Ingibjörg fékk 5.94.

„Með fimm mörk og meistaratitil er ekki hægt að setja út á margt á fyrsta tímabili Íslendings­ins í Noregi. Með sína öflugu nærveru og styrk í návígj­um hafa fáar vakið meiri athygli á þessari leiktíð en hinn 23 ára gamli miðvörður. Hún var kjörin leikmaður ársins af leikmannasamtökum kvenna fyrir bikarúrslitaleikinn,“ segir í umsögn NTB um Ingibjörgu.

Hér að neðan má sjá brot af viðtali sem Vísir tók við Ingibjörgu. Þar var farið yfir tímabilið í heild sinni, íslenska landsliðið og hversu markmiðadrifin hún er. Það viðtal má finna hér.


Tengdar fréttir

Ingi­björg leik­maður ársins í Noregi

Landsliðsmiðvörðurinn Ingibjörg Sigurðardóttir hefur verið valin besti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar. Þetta fékk hún að vita á síðustu æfingu Vålerenga fyrir bikarúrslitaleikinn gegn Lilleström.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×