Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra lagði til í frumvarpi um málið í haust að vegna töluverðs samdráttar í sölu íslenskra landbúnaðarvara í framhaldi af mikilli fækkun ferðamanna yrði horfið til fyrra horfs í uppboði á tollkvótum í eitt ár. En ný aðferð var tekin upp um síðustu áramót sem lækkaði álögurnar og hefur innflutningur eftir það aukist mjög mikið og umfram tollkvóta en mjög lítið hefur verið flutt út af íslenskum landbúnaðarvörum á móti.

Í gær fór Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra síðan fram á viðræður við Evrópusambandið um endurskoðun samninga um þessi mál. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði hann halla mjög á Ísland í þessum viðskiptum eins og úttekt ráðuneytis hans og atvinnuvegaráðuneytisins hefði leitt í ljós.
Mikil andstaða varð strax við frumvarp landbúnaðarráðherra í haust. Neytendasamtökin, Samtök verslunar og þjónustu, Samkeppniseftirlitið og Félag atvinnurekenda sendu öll inn neiðkvæðar umsagnir um frumvarpið.

Þegar meirihluti atvinnuveganefndar lagði síðan til að álögurnar yrðu auknar í þrjú ár í stað eins jókst gagnrýni á frumvarpið til muna.
Landssamband kúabænda lýsti hins vegar yfir stuðningi við frumvarpið. Í tilkynningu frá sambandinu var fullyrt að verðlækkanir á nautakjöti í ríkjum Evrópusambandsins sem og lækkun álags á tollkvóta hér á landi hefði ekki skilað sér í sambærilegri lækkun verðs til neytenda.