„Það er komin ró yfir þetta núna. Það er búið að rýma þau svæði sem þurfti að rýma. Svo verður staðan bara tekin aftur á morgun,“ segir Rögnvaldur í samtali við fréttastofu.
„Við munum skoða hvort óhætt sé að fara inn á svæðið og síðan í kjölfarið förum við í að meta tjónið. Svo þurfum við að taka afstöðu til þess hvenær verður hægt að hleypa fólki heim til sín,“ segir Rögnvaldur.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að ekki væri búið að staðsetja alla en að sú vinna væri í gangi. Rögnvaldur segir að þeirri vinnu sé nú lokið.
„Já, það er búið að staðsetja alla. Það var í dag eftirgrennslan eftir fólki sem átti eftir að staðsetja og það tókst prýðilega,“ segir Rögnvaldur.
Týr á leiðinni Austur og lögreglulið frá Reykjavík og Akureyri mætt
„Það hafa allir fengið húsaskjól í nótt, við höfum ekki heyrt af neinu öðru. Ótal aðilar hafa boðið fram gistirými og svo hafa einstaklingar boðist til að taka á móti fólki og er jafnvel tilbúið að ganga úr rúmum sínum fyrir fólk sem þurfti að rýma þannig að það hefur allt saman gengið rosalega vel,“ segir Rögnvaldur.
Þá hafa einhverjir íbúar á Eskifirði þurft að yfirgefa heimili sín vegna skriðhættu þar. Fjöldahjálparstöð Rauða krossins var opnuð á Eskifirði og allir þeir sem þurftu á að halda eru komnir þangað. Rögnvaldur segist ekki hafa heyrt af því að Eskfirðingar hafi þurft að fara til Egilsstaða í fjöldahjálparstöðina þar. Töluvert færri hafi þurft að rýma hús sín á Eskifirði en á Seyðisfirði.
Lið lögreglu- og sérsveitarmanna frá Reykjavík lentu á Egilsstöðum á sjöunda tímanum en þeir fóru þangað með flugi til að aðstoða við vettvangsvinnu. Þá komu tveir lögreglubílar og lögreglumenn austur frá Akureyri síðdegis í dag.
Varðskipið Týr hefur verið kallað út til Seyðisfjarðar til aðstoðar og lagði það af stað frá Reykjavík klukkan fimm síðdegis. Rögnvaldur segir að ferðin taki um sólarhring og verði það því komið til Seyðisfjarðar síðdegis á morgun.