Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir að verið sé að meta aðstæður. Íbúar Seyðisfjarðar haldi því áfram til þar sem þeim var komið fyrir í gærkvöldi, en stærstur hluti þeirra var á Egilsstöðum í nótt.
„Sérfræðingar Veðurstofunnar eru þarna á svæðinu að vinna og það eru drónar þarna sem við notum sem hjálpartæki til að geta rýnt í hlíðarnar. Þetta mun taka smá tíma en ætti að fara að skýrast um eða upp úr hádegi,“ segir Rögnvaldur.
Meta þurfi horfur á svæðinu og taka ákvarðanir út frá þeim.

Samstaða og skilningur einkenndu aðgerðir
Rögnvaldur segir þá að miðað við aðstæður á Seyðisfirði í gær hafi aðgerðir viðbragðsaðila gengið mjög vel.
„Það var mikill skilningur á svæðinu og allir viðbragðsaðilar stóðu sig gríðarlega vel og líka allir íbúar. Það voru allir samstíga um aðgerðir og hvað þyrfti að gera. Þetta eru ótrúlegar aðstæður sem þetta fólk er í, að þurfa að yfirgefa heimili sín við svona aðstæður. Ég tala nú ekki um svona rétt fyrir jól. Hugur okkar er hjá íbúum fyrir austan,“ segir Rögnvaldur.
Búið var að gera grein fyrir öllum sem voru á svæðinu sem þurfti að rýma og segir Rögnvaldur að einskis sé saknað. Hann sendir sérstakar þakkir til viðbragðsaðila.
„Það er mikið þakklæti fyrir að það hafi enginn slasast í þessu. Það er mikil mildi, og hugur okkar er hjá þeim fyrir austan,“ segir Rögnvaldur.
Hann minnir þá fólk á að sinna áfram sóttvörnum, þrátt fyrir allt.
„Ekki gleyma þeim. Þó að þetta sé í gangi þá þurfum við að muna eftir sóttvörnunum, ofan í þetta allt saman.“