Everton og United eru jöfn að stigum í ensku úrvalsdeildinni en báðum liðum hefur gengið vel þar að undanförnu.
Everton hefur unnið þrjá góða sigra í röð, á Chelsea, Leicester City og Arsenal, eftir rýra uppskeru í leikjunum þar á undan. United hefur aftur á móti unnið sex af síðustu sjö deildarleikjum sínum.
Einn af þeim sigrum var gegn Everton á Goodison Park, 1-3. Eins og alltaf lenti United undir á útivelli en kom til baka og tryggði sér sigurinn. Bruno Fernandes skoraði tvö mörk fyrir United og Edinson Cavani eitt. Bernard gerði mark Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson hefur leikið afar vel í síðustu leikjum Everton. Hann skoraði til að mynda sigurmarkið gegn Chelsea og lagði upp sigurmarkið gegn Arsenal.
Það gæti þó verið að hann fengi frí í kvöld eins og fleiri lykilmenn liðanna. Leikið er þétt yfir hátíðarnar og liðin verða aftur í eldlínunni á öðrum degi jóla. United sækir þá Leicester heim á meðan Everton fer í heimsókn til Sheffield og mætir þar botnliði ensku úrvalsdeildarinnar.
Everton hefur ekki náð langt í deildabikarnum á undanförnum árum og aðeins komist tvisvar í undanúrslit keppninnar á þessari öld. United komst hins vegar í undanúrslit deildabikarsins á síðasta tímabili þar sem liðið tapaði fyrir Manchester City, 2-1 samanlagt.
Leikur Everton og Manchester United hefst klukkan 20:00 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

Carabao Cup er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Carabao Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.