Aftonbladet hefur eftir Söru Byfors, deildarstjóra hjá lýðheilsustofnun Svíþjóðar, að smitið bendi til þess að fleiri einstaklinga sem smitast hafa af afbrigðinu sé að finna í Svíþjóð.
„Frá því að fregnir bárust af þessu í dag höfum við hert eftirlitið. Við erum núna að taka sýni af öllum sem hafa komið frá Bretlandi síðan í október,“ sagði Byfors á blaðamannafundi heilbrigðisyfirvalda í Svíþjóð og hvatti alla sem komið hafa til Svíþjóðar frá Bretlandi til þess að fara í sýnatöku.
Signar Mäkitalo, sóttvarnalæknir Suðurmannalands, sagði þá að litlar líkur væru á að afbrigðið hefði dreifst víða um svæðið.
Eins og áður hefur verið greint frá er talið að afbrigðið sé allt að 70 prósent meira smitandi en önnur afbrigði kórónuveirunnar. Þegar fréttir af mikilli útbreiðslu afbrigðisins í Bretlandi fóru að berast í þessum mánuði brugðu mörg ríki á það ráð að takmarka eða loka á ferðir frá Bretlandi.
Afbrigðið hefur tvívegis greinst á landamærum Íslands. Afbrigðið hefur einnig greinst á Spáni, í Frakklandi, Danmörku, Hollandi, Ástralíu og Japan.