Erlent

„Ástin sigrar,“ segja Meghan og Harry í fyrsta hlaðvarpsþættinum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Árið hefur verið viðburðaríkt hjá Meghan og Harry en það er þó ekki til umræðu í nýja hlaðvarpsþættinum.
Árið hefur verið viðburðaríkt hjá Meghan og Harry en það er þó ekki til umræðu í nýja hlaðvarpsþættinum. Alexi Lubomirski

„Sama hvað lífið gefur þér, treystið okkur þegar við segjum: Ástin sigrar.“ 

Þetta segir Meghan Markle í fyrsta hlaðvarpsþætti hennar og Harry Bretaprins sem datt inn á Spotify fyrir stundu. Hlaðvarpið heitir Archewell Audio en í þessum fyrsta þætti gerir parið árið upp ásamt röð þekktra gesta.

Það fer annars lítið fyrir persónulegum frásögnum Meghan og Harry, sem áttu viðburðaríkt ár. Þau hófu það með því að tilkynna að þau hygðust draga sig í hlé frá konungsfjölskyldunni og í kjölfarið fluttust þau búferlum til Bandaríkjanna.

Þess í stað hafa þau fengið vini og kunningja til að deila sinni reynslu af 2020.

Einn þeirra er tónlistarmaðurinn Elton John, sem segir um að ræða eitt versta ár sem hann hefur upplifað en vonar að mannskepnan verði reynslunni ríkari. Þá tala Hollywood-mógúllinn Tyler Perry og matreiðslumaðurinn Jose Andres um að fæða fátæka.

Meðal annarra, sem héldu „dagbók“ í stað þess að ræða við hertogahjónin, voru gúrúið Deepak Chopra, bandaríski stjórnmálamaðurinn Stacey Abrams og ljóðskáldið George.

Að sögn Meghan áttu frásagnir einstaklinganna allar sameiginlegt að fjalla um mikilvægi þess að tengja við aðra. „Myrkur hrekur ekki burt myrkur; aðeins ljósið getur gert það,“ segir hún.

Hlaðvarpsþátturinn endar á áramótakveðju frá syni parsins, Archie.

Archewell Audio á Spotify.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×