Varðskipið Týr er komið til Önundarfjarðar en hættustig er enn í gildi vegna snjóflóða á Flateyri og Patreksfirði.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni þá kom skipið um Önundarfjarðar í nótt, en greint var frá því í gær að norðaustan stormur væri á siglingaleiðinni og sex til átta metra ölduhæð.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er hættustig enn í gildi, en því verði ekki breytt fyrr en hægt er að sjá til fjalla og aðstæður metnar. Ekki er þó vitað til þess að flóð hafi fallið á varnargarðana á þessum tíma.
Rýmingar eru enn í gildi en íbúðarhús við Ólafstún á Flateyri og nokkur önnur hús ofarlega í bænum, auk tveggja húsa við Urðargötu á Patreksfirði voru rýmd í gær.
Appelsínugul viðvörun er í gildi á Vestfjörðum fram á kvöld, en spáð er norðaustanhríð á svæðinu fram á miðvikudag. Búast má við miklum skafrenningi með lélegu skyggni og slæmum akstursskilyrðum. Ekkert ferðaveður er á svæðinu.
Snjóflóðavakt Veðurstofunnar fylgist grannt með þessum aðstæðum í samráði við almannavarnir að því er segir á vef Veðurstofunnar.