Innlent

Vætu­samt um landið sunnan- og vestan­vert

Atli Ísleifsson skrifar
Spákortið fyrir klukkan 13 í dag, eins og það leit út um klukkan átta í morgun.
Spákortið fyrir klukkan 13 í dag, eins og það leit út um klukkan átta í morgun. Veðurstofan

Útlit er fyrir suðlægri átt, víða á bilinu 10 til 18 metrar á sekúndu, og að það verði vætusamt um landið sunnan- og vestanvert, en lengst af bjart og hlýtt á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti verður á bilinu 6 til 13 stig, hlýjast austanlands.

Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að í kvöld og í nótt kólni og séu líkur á að úrkoma norðvestantil á landinu gæti farið yfir í slyddu á láglendi og snjókomu til fjalla.

„Á morgun nær svo suðaustanáttin styrk aftur og þá hlýnar svo að ef snjóar á norðvestanverðu landinu um nóttina tekur það fljótt upp, en áfram mun rigna sunnan- og vestantil. Þurrt og hlýtt fyrir norðan og austan. Svo er að sjá að mánudagurinn verði á svipuðum nótum.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag: Sunnan 8-13 m/s og rigning á sunnanverðu landinu, en þurrt norðaustantil. Hiti 5 til 10 stig. Hægari og slydda á Norðvesturlandi, Vestfjörðum og við Breiðafjörð með hita á bilinu 0 til 3 stig í fyrstu en síðan heldur hlýrra og rigning.

Á mánudag: Suðlæg átt, 8-13 m/s og dálítil væta, en hægari vindur og þurrt norðaustanlands. Hiti víða 5 til 10 stig.

Á þriðjudag: Sunnan 5-10, en hægari vestantil. Skýjað og væta, en áfram þurrt um landið NA-vert. Hiti 2 til 12 stig yfir daginn, hlýjast á NA-landi.

Á miðvikudag: Áframhaldandi suðlæg átt. Skýjað, en yfirleitt þurrt vestantil, en annars bjart með köflum. Hiti 3 til 8 stig yfir daginn.

Á fimmtudag (sumardagurinn fyrsti): Líkur á suðlægri átt með vætu um landið vestanvert, en yfirleitt þurrt annars. Hiti breytist lítið.

Á föstudag: Útlit fyrir austlæga eða breytilega átt með vætu í flestum landshlutum. Áfram fremur milt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×