Erik Hamrén segir að hann verði áfram þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta og muni stýra því á EM 2021, komist Ísland þangað.
Í ágúst 2018 skrifaði Hamrén undir tveggja ára samning við KSÍ, eða fram yfir EM 2020 með möguleika á framlengingu ef vel gengur. Þótt búið sé að færa EM fram um ár verður Svíinn áfram með íslenska liðið.
„Markmiðið hefur alltaf verið að komast á EM. Umspilið er í júní og við eigum góða möguleikaá að komast á EM en maður veit aldrei í umspili. En frá fyrsta degi hefur stefnan verið sett á að komast á EM,“ sagði Hamrén í Sportinu í dag á Stöð 2 Sport.
„Leikmennirnir eru mjög einbeittir í því að fara á EM. Við ætlum að spila vel í júní og komast á EM. Og ég verð þar,“ bætti sá sænski við.
Ísland mætir Rúmeníu í umspili um sæti á EM í júní en nákvæm dagsetning liggur ekki enn fyrir. Sigurvegarinn mætir svo annað hvort Búlgaríu eða Ungverjalandi í hreinum úrslitaleik um sæti á EM.
Þetta er í þriðja sinn sem Hamrén fer með lið í umspil um sæti á stórmóti. Svíar, sem hann stýrði á árunum 2009-16, töpuðu fyrir Portúgölum í umspili um sæti á HM 2014 en unnu Dani í umspili um sæti á EM 2016.