Meðfram lækkandi heimsmarkaðsverði á olíu hefur mátt gæta verðlækkunar við bensíndælurnar - hvergi þó meiri en hjá Costco í Kauptúni.
Þar hefur bensínlítrinn lækkað um 16 krónur á einni viku - þar af um 12 krónur í morgun ef marka má Gasvaktina, sem heldur utan um þróun bensínverðs í landinu.
Er nú svo komið að bensínlítrinn kostar þar 180 krónur, en sem áður þurfa viðskiptavinir Costco að greiða árgjald áður en dæling hefst. Verðið hjá öðrum stöðvum hefur einnig lækkað, hvergi þó í líkingu við lækkunina í Costco.
Tunnan af Brenthráolíu kostar nú 26 dali og hefur ekki verið ódýrari í ein 13 ár. Verðlækkunina má meðal annars rekja til minnkandi eftirspurnar vegna kórónuveirufaraldursins, auk þess sem stærstu olíuveldi heims hafa ekki náð saman um að draga úr framleiðslunni.
Meðfylgjandi er skýringarmynd frá Gasvaktinni sem sýnir þróun eldsneytisverðs.
