Sport

Neville vill „fótboltahátíð“ í lok tímabilsins og segir leikmennina spila níu daga í röð sé það nauðsynlegt

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gary Neville og Jamie Carragher vinna báðir fyrir Sky Sports.
Gary Neville og Jamie Carragher vinna báðir fyrir Sky Sports. Getty/Michael Regan

Gary Neville, sparkspekingur Sky Sports og fyrrum leikmaður Manchester United, hefur ekki miklar áhyggjur af því hvar koma eigi leikjunum fyrir í maí og júní mánuði sem eftir eru í enska boltanum.

Í gær var tilkynnt að deildin færi ekki af stað fyrr en í fyrsta lagi þann 30. apríl en liðin eiga níu til tíu leiki eftir í deildinni. Reynt verði að klára deildirnar fyrir 30. júní.

Gary Neville og Jamie Carragher voru gestir The Debate á Sky Sports í gærkvöldi þar sem þeir fóru yfir stöðuna í heimsfótboltanum.

„Það síðasta sem ég hef áhyggjur af núna er það hvar eigi að koma leikjunum fyrir. Ef leikmennirnir þurfa í versta falli að spila níu daga í röð, þá gera þeir það og búa til fótboltahátíð,“ sagði Neville.

„Það yrði fallegt. Fótboltinn getur gefið þjóðinni gleði og von til þess að komast út úr þessum vandræðum. Með því að búa til fótboltahátið þar sem deildin er kláruð á tveimur vikum, Meistaradeildin á einni viku og enski bikarinn á fjórum dögum væri eitthvað sérstakt.“

„Ég er ekki að segja að það ætti að fara eftir þessum dæmum en það gæti verið margt sérstakt við það að stuðningsmennirnir hittist aftur eftir krísuna og það myndi færa þjóðinni gleði svo fótboltinn hefur áhrif á svo marga.“

„Það síðasta sem veldur mér áhyggjum er leikjaplanið. Ég held að leikmenn, stjórnvöld og sambandið vilji spila eins marga leiki og hægt er á viku, mánuði eða þremur vikum bara til þess að komast aftur í gang,“ bætti Neville við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×