Landlæknir telur skíðaáhuga heilbrigðisstarfsmanna ástæðu þess að á þriðja hundrað starfsmenn Landspítala séu í sóttkví, sem er talsverður fjöldi. Hún kvað fjöldann áhyggjuefni en sagði að gengið hefði mjög vel að halda starfseminni gangandi. Þetta kom fram í máli landlæknis á upplýsingafundi vegna kórónuveiru nú síðdegis.
Samkvæmt Covid-tölum Landspítalans fyrir daginn í dag eru alls 21 innlagðir sjúklingar á spítalanum í sóttkví. Ölmu Möller landlækni var ekki kunnugt um hvort einhver sjúklingur á spítalanum hefði smitast af veirunni þegar hún var spurð að því á upplýsingafundinum.
Þá eru 25 starfsmenn Landspítala í einangrun og 224 starfsmenn í sóttkví. Alma sagði aðspurð að það væri áhyggjuefni hversu margir starfsmenn spítalans væru í sóttkví.
„En Landspítala hefur gengið ótrúlega vel að takast á við það og tekist að halda mikilli starfsemi.“
Þá var Alma spurð hvort þennan mikla fjölda starfsmanna í sóttkví mætti rekja til starfsins inni á spítalanum eða utanlandsferða.
„Ég held þetta sé skíðaáhugi starfsmanna,“ sagði Alma. Upplýsingafundinn í heild má sjá hér fyrir neðan.
Í byrjun mars var þeim tilmælum beint til heilbrigðisstarfsfólks og annarra í framlínu á heilbrigðisstofnunum að fara ekki til útlanda vegna veirunnar. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu fóru hjúkrunarfræðingar og læknar í skíðaferð til Austurríkis eftir að þessi tilmæli voru gefin út.
Þá hafa heilbrigðisyfirvöld óskað eftir liðsinni heilbrigðisstarfsfólks úr hópi lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða í svokallaða bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Hundruð heilbrigðisstarfsmanna hafa þegar skráð sig í bakvarðasveitina.