Fótbolti

Úrvalsdeildin rifjar upp þrumufleyg Grétars: „Mark upp úr gjörsamlega engu“

Sindri Sverrisson skrifar
Grétar Rafn Steinsson stöðvar Cristiano Ronaldo í leik gegn Manchester United á fyrsta ári sínu hjá Bolton.
Grétar Rafn Steinsson stöðvar Cristiano Ronaldo í leik gegn Manchester United á fyrsta ári sínu hjá Bolton. VÍSIR/GETTY

Grétar Rafn Steinsson ætlaði svo sem ekki að skjóta en fyrsta mark hans fyrir Bolton var engu að siður stórkostlegt. Enska úrvalsdeildin rifjaði markið upp.

Grétar hafði komið til Bolton frá AZ Alkmaar í Hollandi í janúar 2008. Hægri bakvörðurinn hóf svo tímabilið 2008-2009 með besta mögulega hætti þegar hann skoraði fyrsta mark Bolton á leiktíðinni, í 3-1 sigri á Stoke. Markið má sjá hér að neðan.

Í viðtali við Guðmund Hilmarsson hjá Morgunblaðinu viðurkenndi Grétar að hafa ætlað að senda fasta sendingu. „Ég er búinn að sjá markið í sjónvarpinu og það leit ekki út alveg eins og maður sá það þegar þetta gerðist. Ég gæti logið og sagt að ég hafi ætlað mér að gera þetta en það eru vitleysingar sem skjóta á markið af þessu færi. Boltinn átti að fara í þessa átt, milli markmanns og varnarmanna, en hann endaði í netinu og það var virkilega gaman að sjá það,“ sagði Grétar.

Grétar lék með Bolton til ársins 2012. Hann lagði skóna á hilluna árið 2013 vegna meiðsla. Í dag starfar Grétar hjá Everton þar sem hann var ráðinn sem yfirnjósnari í Evrópu undir lok árs 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×