Fótbolti

Lovren líkir árangri Liverpool við góða máltíð

Anton Ingi Leifsson skrifar
Dejan Lovren í leik með Liverpool á leiktíðinni.
Dejan Lovren í leik með Liverpool á leiktíðinni. VÍSIR/GETTY

Dejan Lovren, varnarmaður Liverpool, segir að leikmenn liðsins séu hungraðir í enn meiri árangur og vonast til þess að hryggjasúlan verði áfram hjá félaginu um ókomin ár. Hann hrósar Jurgen Klopp, stjóra liðsins, í hástert.

Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi enska boltans en allt er nú stopp eins og kunnugt er vegna kórónuveirunnar. Heimasíða Liverpool ákvað þar af leiðandi að heyra í króatíska varnarmanninum og hann er eðlilega ánægður með árangurinn undanfarin ár.

„Þetta er ákveðið námsferli. Hryggurinn í liðinu hefur verið lengi og þetta byrjaði allt með þjálfaranum - hann hefur gert frábæra hulti frá því að hann kom til félagsins. Hann hefur sýnt öllum að hann hefur færnina og hæfileikana til þess að stýra liðinu, bæði á erfiðum og góðum augnablikum,“ sagði Lovren.

„Við höfum ekki hætt að leggja á okkur. Við erum áfram hungraðir og það er það sem hann kom með inn í félagið. Við erum alltaf hungraði og munum verða það áfram. Þegar þú býrð til góða máltíð, viltu gera hana aftur og þú vilt ekki hætta. Það er það sem heldur okkur á tánum. Við viljum sýna öllum hvað við getum.“

„Það er mikilvægt að hafa góða blöndu af leikmönnum sem eru á yngri árum, á miðárunum og svo reynslumikla leikmenn. Ég held að við höfum þetta frábæra jafnvægi. Við erum vanir því að spila í úrslitaleikjum og í stórum leikjum og við vitum hvernig á að höndla það.“

„Jafnvel þó að við séum að tapa 1-0 þá vitum við hvað við eigum að gera og því er mikilvægt að hafa þetta jafnvægi. Ef við höldum mikilvægum leikmönnum og hryggnum í liðinu þá mun liðið bara vaxa.“

Leikmenn Liverpool reyna að halda sér í formi heima fyrir en Króatinn segir að þetta sé erfitt. Hann þakkar þá framlínunni.

„Þetta eru erfiðir tímar fyrir alla. Eina sem við getum gert er að vera heima og hlusta á ráð stjórnvalda. Allir vita að fólkið í heilbrigðiskerfinu er að leggja hart á sig og við ættum að þakka þeim sem standa í framlínunni,“ sagði Króatinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×