Innlent

Fyrr­verandi kennari arf­leiddi Land­búnaðar­há­skólann að 200 milljónum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri fékk rausnarlega gjöf frá fyrrverandi kennara.
Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri fékk rausnarlega gjöf frá fyrrverandi kennara. ja.is

Fyrir andlát sitt þann 28. desember síðastliðinn bjó Magnús Óskarsson, fyrrverandi kennari og tilraunastjóri, þannig um hnútana að Landbúnaðarháskóli Íslands yrði arfleiddur að öllum hans eigum að honum látnum. Bændablaðið áætlar að þær hafi numið um 200 milljónum króna og er haft eftir rektor Landbúnaðarháskólans að gjöfin komi að góðum notum og að allir starfsmenn skólans séu þakklátir fyrir hana.

Rektorinn segir jafnframt að arfinum hafi fylgt þau skilyrði að fjárhæðin verði nýtt til að efla anga skólans sem tengjast starfi Magnúsar, en hann bjó á Hvanneyri og starfaði við skólann alla sína starfsævi.

Málverk af Magnúsi Óskarssyni í eigu skólans málað af Baltasar Samper.Landbúnðarháskóli Íslands

Hlutverk Magnúsar var auk kennslu að koma upp grasafræðigarði og stunda tilraunir.

Hann er þannig talinn einn af frumherjum í íslenskri tilrauna- og ræktunarsögu á sviði landbúnaðar. 

Arfinum er því ætlað að byggja upp aðstöðu til frekari rannsókna og kennslu á sviði jarðræktarfræða, umhverfisfræða og landnýtingar. 

Fjárhæðina megi einnig nýta til að efla íþróttaaðstöðu skólans eða verknámsaðstöðuna á Hvanneyri, að því er fram kemur í Bændablaðinu.

Magnús Óskarsson lést sem fyrr segir í lok síðasta árs. Hann var 93 ára gamall. 

Magnús varð búfræðikandidat frá Bændaskólanum á Hvanneyri 1953 og réðist svo til skólans sem kennari og tilraunastjóri eftir framhaldsnám og störf í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×